Quantcast
Channel: Matur - Dagbók Ragnars Freys Ingvarssonar
Viewing all 358 articles
Browse latest View live

Ljúffengt bleikju-tacos með mangó-chilisalsa, snöggpækluðum gulrótum og ferskum kóríander

$
0
0

Ég reyni að elda fisk tvisvar í viku - auðvitað ætti ég að gera það oftar - sérstaklega núna þegar við búum á Íslandi og aðgengi að spriklandi ferskum fiski er náttúrulega einstakt. Ég fer eiginlega alltaf til félaga minna í Fiskbúðinni á Sundlaugaveginum - ég hef vanið komur mínar þangað - og veit að hverju ég geng. Að þessu sinni fékk ég hjá þeim fjallableikju sem var alveg splunkuný.

 

Það er ekki oft sem ég fæ að nota kóríander í mat á mínu heimili. Það er vegna þess að eiginkona mín, Snædís, er með algera andúð á þessu ljúfmeti. Hún, líkt og 17% Vesturlandabúa, finnur sápubragð þegar hún smakkar á þessari jurt. Það hefur gert það að verkum að ég nota það afar sjaldan - nema þá þegar ég geri tacos og þá getur hver skammtað fyrir sig.

 

Ljúffengt bleikjutacos með mangó-chilisalsa, snöggpækluðum gulrótum og ferskum kóríander

 

Kryddið sem ég notaði á fiskinn er kryddblanda sem við erum að þróa saman, við Ólöf og Omry, hjá Krydd og Tehúsinu. Það er einkar ljúffengt á bragðið og ég hlakka til að kynna það nánar fyrir ykkur.

 

Fyrir fjóra

 

Hráefnalisti

 

800 g fjallableikja

2 msk hvítlauksolía

2-3 tsk kryddblanda að eigin vali

safi úr einni sítrónu

salt og pipar

 

1 mangó

1 rauður chili

1 rauðlaukur

2 tsk steinselja/mynta

2 msk jómfrúarolía

1 tsk rauðvínsedik

salt og pipar

 

2 gulrætur

2 msk rauðvínsedik

salt og pipar

 

Blandað grænmeti

handfylli kóríander

 

 

Penslið fjallableikjuna með hvítlauksolíu.

 

 

Dreifið svo kryddinu yfir og penslið flökin vandlega. Saltið og piprið.

 

 

Kreistið sítrónuna yfir bleikjuna.

 

 

Það er leikur einn að útbúa gulræturnar. Flysjið þær einfaldlega í skál og hellið edikinu yfir, saltið og piprið og látið liggja í 30 mínútur. 

 

 

Skerið mangóið í smá bita, ásamt rauðlauknum, chilipiparnum og blandið saman. Setjið næst olíuna,  edikið og kryddjurtirnar saman við. Saltið og piprið. Það er gott að láta salsað standa í þrjú korter til að allt bragðið nái að knúsast.

 

 

 

Steikið bleikjuna í olíu/smjöri þangað til að hún er steikt í gegn.

 

 

 

Með matnum nutum við þessa ljúffenga hvítvíns, Masi Masianco. Ég varð enn hrifnari að Masi vínunum eftir að við heimsóttum Valpolicella í maí - og Masi fyrirtækið. Við fengum að kynnast eigendum fyrirtækisins og það var einstaklega verðlaunandi að kynnast vínunum með þeim sem framleiða vínið. Þetta vín er blanda úr Pinot Grigio og Verduzzo þrúgunum - það er fallega gult í glasi, hefur léttan sítrónukeim í bland við örlítið sætan ávöxt. Passar ljómandi vel með fiskrétt eins og þessum. 

 

 

Svo er bara að raða matnum upp - hita burrito-köku í ofni eða á pönnu, smá salsa, handfylli af blönduðu grænmeti, vænn biti af heitri og ilmandi góðri bleikju, nóg af mangó-chilisalsa, gulrætur og nóg af fersku kóríander. 

 

Verði ykkur að góðu! 

 


Tvenns konar lamb sousvide með mömmusveppasósu í dásamlegu Kjósinni

$
0
0

 

Eftir langa, en góða, vinnuviku á stofunni minni drifum við okkur í sveitina. Foreldrar mínir, Lilja og Ingvar, eiga dásamlegt athvarf upp við Meðalfellsvatn í Kjós. Þau leyfa okkur gjarnan að koma í heimsókn - og það er alltaf dásamlegt að lúra í kotinu. Veðurblíðan þetta haust hefur líka verið með eindæmum - þetta langa og litskrúðuga haust - dásamlegt logn - brakandi ferskt loft. Í morgun vöknuðum við kvak svana á vatninu - og kindurnar höfðu fundið sér leið inn í garðinn okkar og tuggðu gras af áfergju. Hvað er yndislegra en að vakna, lifa og sofna í svona paradís? 

 

Vinir mínir hjá SS voru að merkja forkryddað lambakjöt hjá sér að óhætt væri að elda það með sous vide aðferð. Ég bauðst til að prófa. Flestir sem lesa bloggið mitt vita að ég hef verið að prófa mig áfram með þessa aðferð síðastliðin fimm til sex ár. Í bókinni minni, Veislunni Endalausu, sem kom út árið 2014 fannst mörgum lesendum heldur framandi að sjá þar nokkrar uppskriftir með þessari aðferð - nú held ég að langflestir matgæðingar kannist vel við þessa aðferð - og séu jafnvel farnir að beita henni sjálfir. 

 

Um miðjan næsta mánuð kemur einnig á markaðinn sous vide tæki, Vuoto - sem ég mæli eindregið með - í kassanum fylgir sous vide matreiðslubók eftir undirritaðan. Þetta er hugsað einna helst á fyrirtækjamarkað en einstaklingar geta nálgast tækið hjá Margt Smátt og í Kjötkompaníinu í Hafnarfirði. Ég er búinn að vera að prófa tækið síðan snemma í vor og það skilar sínu - kröftug og stöðug græja. 

 

Fyrir þá sem eru ennþá að stíga sín fyrstu skref í sous vide eldamennsku eða vilja kynnast henni nánar þá er kynning hér. 

 

Tvenns konar lamb sousvide með mömmusveppasósu í Kjósinni dásamlegu 

 

Það er nú ekki mikil eldamennska í þessari færslu ef frá er talin sósan sem mamma sauð upp. Við mamma beitum svipaðri aðferð við sósuna, en hennar verður alltaf aðeins betri en mín. Hún beitir einhverjum brögðum sem ég bý ekki yfir. 

 

Fyrir átta

 

1 kg lambasirloin, forkryddað

1 kg lambasirloin, "Bragð frá Ítalíu" 

 

Meðlæti

 

1 kg kartöflur

2 sætar kartöflur

1 heill hvítlaukur

4 msk jómfrúarolía

salt og pipar

 

Salat

 

blandað grænt salat

tómatar

sugarsnap baunir

sætar rauðar papríkur

fetaostur

salatsósa að eigin vali (heimagerð að sjálfsögðu) 

 

Fyrir sósuna

 

250 gr sveppir

1 laukur

3 hvítlauksrif

70 gr smjör

150 ml rjómi

200 ml vatn

1 lambateningur

vökvi af kjötinu

salt og pipar eftir smekk

 

 

Það var nú engin vinna fólgin í því að undirbúa kjötið. Lét það ná herbergishita áður en ég setti það í vatnsbaðið.

 

 

Lét vatnsbaðið vera í 56 gráðum. Setti plastfilmu yfir bara til að halda varmanum betur. 

 

 

Svo var bara að láta kjötið eldast í tvær klukkustundir. Þá er það fullkomlega eldað í gegn. 

 

 

Á meðan gerði mamma sósuna - ég gerði lítið annað en að smakka til og njóta!

 

Sósan er gerð nokkurn veginn svona;

 

Byrjið á að skera laukinn og hvítlaukinn smátt, sveppina gróft. Bræðið smjörið í pottinum og steikið sveppina, laukinn og hvítlaukinn við lágan hita. Ekkert á að brenna, bara hægt og bítandi að brúnast. Þegar eldhúsið er orðið fullt af dásamlegum sveppailm og hnetukeim, er rjómanum, vatninu og teningum hellt saman við og soðið upp, sjóðið síðan niður þangað til að sósan er af þeirri þykkt sem þið óskið.

 

Þegar lambið er tilbúið er öllu soði af því hellt saman við sósuna - við notuðum bara vökvann af forkryddaða lambinu. Hrærið vel saman við og smakkið til með salti og pipar. Sætið með sultu ef sá gállinn er á ykkur.

 

Kartöflurnar voru skornar niður, velt upp úr olíu og smátt skornum hvítlauk og bakaðar í ofni í tæplega klukkustund. Auðvelt!

 

 

Kjötið lítur svona út þegar það er fulleldað - nú er bara eftir að brúna það að utan. Það má að sjálfsögðu gera á pönnu, en í sveitinni grillum við alltaf.

 

 

Gætið þess að kveikja ekki í lambinu. 

 

 

Bara í stutta stund - hugmyndin er bara að fá smá rendur á kjötið - við erum að sækjast eftir Maillard efnahvarfinu - þar sem amínósýrurnar og sykrurnar á yfirborði kjötsins brúnast saman og mynda ný bragðrík efnasambönd. 

 

 

Ég veit ekki um ykkur - en þetta er fullkomlega eldað. Þetta er lambasirloin með kryddjurtum.

 

 

Og þetta er lambaribeye með ítölskum bragðkeim.

 

 

Með matnum nutum við þessa víns sem hefur verið í sérstöku uppáhaldi hjá mér, sér í lagi síðan í vor þegar ég fékk að heimsækja framleiðandann Masi, sem er í Valpollicella, sem eru svæði í grennd við Verónaborg. Þetta er vín sem ég hef drukkið oft áður - í þetta sinn vorum við með afmælisárganginn 2014 - en það hefur verið framleitt í 50 ár. Vínið er gert úr blöndu af þrúgum, mest Corvina, Rondinella og Molinara. Afmælisvínið er frábrugðið fyrri árgöngum að því leyti að öll uppskeran fór í framleiðsluna - Masi framleiðir einnig Amarone vín - en í ár var allt púðrið sett í Campofiorin. Og það finnst á bragðinu - það er kraftmikið, ávaxtaríkt, djúpt og með löngu eftirbragði. Það þolir án efa talsverða geymslu og jafnvel á það eftir að dafna með árunum. 

 

 

Báðir bitar voru lungamjúkir - og þó að lambaribeyið hafi verið gott þá var ég talsvert hrifnari af lambasirloin með kryddjurtum. Það var sérstaklega ljúffengt og kryddblandan hentar ákaflega vel fyrir sous vide eldamennsku. 

 

Eina sem hefði gert lambið betra - væri ef ég hefði kryddað það sjálfur, kannski væri það frábær hugmynd?

 

En gott var það! 

 

Verði ykkur að góðu! 

 

Lambakjötbollur "stroganoff" með tagliatelle og ristuðum valhnetum

$
0
0

 

Við höfum dvalið í New York nú um helgina. Við fengum ráðleggingar hjá vinum okkar, Tómasi og Önnu Margréti, sem dvöldu hérna í sumar ásamt yndislegu drengjunum þeirra - tvíburunum, Marínó og Sólvin. Þau voru í íbúðaskiptum og dvöldu í á aðra viku í Brooklyn, hverfi sem hefur tekið miklum breytingum síðastliðinn áratug eða svo. Við fundum ágætis hótel skammt frá Brooklyn brúnni - Aloft hótelið á Duffield götu. Þaðan höfum við kannað svæðið ýmist á fótgangandi eða hjólandi. 

 

Við fórum í afar skemmtilega hjólaferð um Brooklyn með Tony sem starfar hjá Brooklyn Bicycle Tours. Við fórum í ljómandi skemmtilega ferð með honum - The Brooklyn Pizza Sunset Tour þar sem við hjóluðum um allt hverfið - frá Williamsburg þvert og endilangt og svo suður til Brooklyn Heights. Við fengum að smakka flatbökur frá þremur stöðum - allt frábærar bökur. Mér fannst sú síðasta best - en hún var fyrst steikt og svo eldbökuð - pizza fritta.

 

Svo höfum við gengið borgina þvera og endilanga - í dag fengum við svo bókstaflega veður af veðrinu á Íslandi.

 

Flugið okkar til Íslands var afbókað og nær ómögulegt að fá upplýsingar um hvernig heim átti að komast. Eftir um tuttugu símtöl til Icelandair - og tveggja klukkustunda bið bauðst okkur að komast til Íslands með því að fara í gegnum Minneapolis - sem þýðir ferðalag upp á fimmtán klukkustundir. Ég náði að skipta vakt en konan mín missir af tækifæri til að halda fyrirlestur sem skipulagður var við heimkomu. Þó að ég skilji vel að ófyrirsjáanlegar aðstæður sköpuðust með þessu óveðri þykir mér furðulegt að ekki megi setja farþega í betra sæti til að flýta fyrir heimkomu. Við þessar aðstæður segir maður bara að sem betur fer er samkeppni um flugfarþega á Íslandi.

 

Við náðum líka að redda pössun fyrir börnin okkar. Sem betur fer eigum við gott fólk á Íslandi, ömmu Lilju og afa Ingvar og svo bróður minn - sem sjá um grísina.

 

Við hlökkum til að komast heim! 

 

Lambakjötbollur stroganoff með tagliatelle og ristuðum valhnetum

 

Ég fékk hugmyndina að þessum rétti af myndbandi sem ég fann á netinu. Ég breytti uppskriftinni auðvitað aðeins til að laga hana að "séríslenskum aðstæðum"

 

Hráefnalisti

 

Fyrir fjóra til sex

 

500 g lambahakk

500 g nautahakk

2 skalottulaukar

100 g heimagerður raspur (ég átti brauð frá Brauð og Co - ekki leiðinlegt það)

2 egg

4 msk heimagerð hvítlauksolía

1 msk hökkuð steinselja

1 msk timjan 

salt og pipar

250 g sveppir

1 msk djion sinnep

2 msk smjör

1/2 hvítvínsglas

250 ml kjötsoð

ein dós af sýrðum rjóma

4 greinar af timjan

salt og pipar

handfylli valhnetur

 

100 g af tagliatelle á mann

 

 

 

Byrjið á að blanda kjötbollurnar - setjið allt hráefnið í skál; hakkið, eggin, raspinn, hvítlauksolíuna, fersku kryddjurtirnar, salt og pipar og hnoðið vandlega saman.

 

 

Klípið svo rúmlega matskeið af blöndunni og mótið í fallegar kjötbollur - að stærð við golfbolta.

 

 

Bræðið smjör á góðri pönnu.

 

 

Ég elska að nota járnpönnur við svona eldamennsku - eitthvað í mér segir mér að kjötið brúnist betur á svona pönnum en öðrum pönnum.

 

 

Þegar búið er að brúna bollurnar að utan setjið þið þær svo í eldfast mót og bakið í 180 gráðu heitum ofni í kortér.

 

 

Sneiðið sveppina í sneiðar. 

 

 

Bræðið meira smjör í pönnu og karmelliserið svo sveppina að utan þangað til að þeir eru fallega brúnir. Það er um að gera að fá börnin ykkar til að hjálpa til á þessu stigi málsins. 

 

Maturinn verður bara betri þegar svona krútt hjálpa til við matargerðina. 

 

Þið getið dáðst að þeim - og notið rauðvínsdreitils á meðan. Ekki gleyma því að salta og pipra. 

 

 

Þegar sveppirnir eru brúnaðir - setjið þið sinnepið saman við og blandið vandlega saman. Ilmurinn í eldhúsinu mun verða dásamlegur.

 

 

Bætið svo hálfu hvítvínsglasi á pönnuna og sjóðið áfengið vel niður. Bætið næst við kjötsoði og sjóðið niður um helming.

 

 

Snarið svo einni dós af sýrðum rjóma á pönnuna og blandið vel saman.

 

 

Næst ferskt timjan - það má auðvitað setja það fyrr á pönnuna.

 

 

Bætið svo kjötbollunum saman við sósuna. 

 

 

Sjóðið tagliatelle í söltu vatni þangað til að það er "al dente" - sem þýðir að það er aðeins undir tönn þegar bitið er í það. 

 

 

Ristið handfylli af valhnetum í þurri pönnu.

 

 

 

Með matnum nutum við þessa rauðvíns; Marques de Casa Concha Cabernet Sauvignion frá því 2015. Þetta er vín  frá Chile sem ég hef drukkið nokkrum sinnum áður - og er gjarn á að taka með mér þegar ég fer í gegnum tollinn á Keflavíkurflugvelli.  Þessi sopi er munnfyllur - fallega dumbrautt í glasi - með þéttu ávaxtabragði - sólber og kirsuber, kryddað og jarðkennt með ljúfu eftirbragði. 

 

 

Þetta var einstaklega velheppnaður réttur. Lambahakk er ótrúlega ljúffengt!

 

Verði ykkur að góðu!

Lamba-chili con carne með sýrðum rjóma, nachos og avocadó á köldu haustkvöldi

$
0
0

 

 

Sumir pottréttir eru einfaldlega betri en aðrar - og chili con carne trónir þarna á toppnum með mörgum góðum uppskriftum eins og t.d. Bolognese. Og alveg eins og bolognese þá finnst mér Chili con carne vera uppskrift sem passar einstaklega vel þegar kólna fer í veðri og helst að það sé komin snjóhula yfir jörðina.

 

Ég hef margoft eldað chili con carne áður - meira að segna grænmetisútgáfu sem var déskoti ljúffeng - hægt er að lesa um hana hérna. En af einhverri ástæðu hef ég látið það vera að setja mína útgáfu af þessum rétt á netið - en bæti úr því núna.

 

Mér finnst gott að gera stóra uppskrift í senn. Þá veit ég að það verður til afgangur, sem hægt er að frysta og þannig á maður til veislumáltíð í vændum þó að tíminn sé knappur - eins og það oft vill verða í aðdragandi hátíðanna sem framundan eru.

 

Lamba-chili con carne með sýrðum rjóma, nachos og avocadó á köldu haustkvöldi

 

Mér finnst gott að gera þennan rétt talsvert heitan - hann verður betri fyrir vikið og stendur þannig betur undir nafni - en þar gengir sýrði rjóminn hvað stærstu hlutverki, ekki bara sem bragðbætandi efni heldur hefur hann líka kælandi áhrif þannig að maka manns og börn svíða síður undir chilipiparnum.

 

Fyrir 4-6 (þrisvar sinnum)

 

2 laukar

4 hvítlauksrif

5 cm engifer

3 rauður chilipipar

jómfrúarolía

4 tsk chiliduft

2 tsk broddkúmen

2 tsk kóríander

2 kanelstöng

3 lárviðarlauf

1 kg lambahakk

500 g nautahakk

1 dós chipotle salsa (hefði notað chipotlemauk en fann það ekki í búðinni)

4 dósir niðursoðnir tómatar

3 dósir blandaðar baunir í dós (t.d. nýrnabaunir, svartar baunir og brúnar baunir)

1,5 l kjúklingasoð

2 msk kakóduft

salt og pipar

 

Sýrður rjómi

Nachosflögur (eða tortilla)

rifinn ostur

ferskur kóríander

 

 

Sneiðið laukinn, hvítlaukinn, engiferin og chilipiparinn.

 

 

Steikið í heitri olíu í stórum potti - núna verður tekið til hendinni. 

 

 

Merjið kóríanderfræ og broddkúmen í mortéli og bætið útí pottinn ásamt chiliduftinu. 

 

 

Næst lárviðarlauf og svo heill kanil.

 

 

Svo er að setja kjötið - og brúna það vandlega. Ekki gleyma að salta og pipra.

 

 

Ég rótaði í búrinu hjá mér og fann nokkrar tegundir af tómötum, bæði heila og maukaða. Kann þó alltaf betur við heila - finnst þeir yfirleitt gefa manni betra bragð. 

 

Setti svo 1,5 L af kjúklingasoði. 

 

 

Ég ætlaði að nota bara chipotle mauk - en það var ekki til í búðinni þannig að ég keypti þetta í staðinn - og ekkert að því - þetta var líka ljúffengt. 

 

 

Fullt af tabaskó!

 

 

Kakóið er eiginlega leynigesturinn í þessa kássu og gefur henni ljúffenga breidd.

 

Það þarf að svo að sjóða kássuna niður í um sex kortér þannig að hún er orðin þykk og girnileg.

 

 

Skolið baunirnar og bætið þeim svo út í kássuna. Það þarf ekki nema 20 mínútur til að hita þær í geng.

 

 

Alveg að koma.

 

 

Ég nota alltaf 18% rjóma - mér finnst hann langbestur - auk þess að bæta matargerðina þá hefur hún líka kælandi áhrif eins og ég nefndi áðan. 

 

 

Mér finnst ágætt að fá mér smá rauðvínstár með mat eins og þessum, og þá finnst mér gott að eiga eina búkollu inn í búri sem hægt er að laumast í þegar maður týmir ekki að opna flösku. Og þetta er alveg ljómandi góður sopi til að hafa með Chili con carne. Lindemans er auðvitað vín sem annar hver Íslendingur hefur einhvern tíma bragðað. Ágætis ávaxtabragð, fínn fylling og gott jafnvægi í eftirbragðinu. 

 

 

Svo er bara að raða þessu saman á disk. 

 

Ég hafði avókadóið með - sem er auðvitað ljúffengt - en aðallega vegna þess hvað ég var undrandi yfir því að fá svona fallegt avókadó - þau virðast ekki vaxa á trjánum hérna á Fróni! 

 

Þetta var dásamlega ljúffengt og saðsamt. 

 

Verði ykkur að góðu! 

Eldsnöggur lax frá fjarlægum löndum með mynturaitu í salatvefju

$
0
0

 

 

Eins og kannski margir hafa tekið eftir á blogginu mínu þá hef ég verið að vinna með Ólöfu og Omry, eigendum Krydd og Tehússins, á síðustu misserum. Það hefur verið ánægjulegt að kynnast þessu ljúfa fólki og kynnast þeirri ástríðu sem liggur að baki vinnu þeirra. Þau hafa í tvö ár rekið Kryddbúðina sína í Þverholti. Hún er krúttlegri en hægt er að setja í orð - það verður eiginlega bara að kíkja við.

 

Við höfum þróað saman nokkrar kryddblöndur sem virðast leggjast vel í landsmenn en þau hafa selst upp nokkrum sinnum á síðustu mánuðum. Kryddblöndurnar hafa verið teknar í sölu í Fjarðarkaupum, Melabúðinni og Hagkaup auk þess að fást á netinu. Við bindum auðvitað vonir við að þær muni sjást á hillum fleiri verslana eins og Krónunni og Nettó.

 

Við byrjuðum á því að setja fimm blöndur á markaðinn fyrir sumarið en erum nú að bæta í safnið; bráðum verður Villt og ótamið - villibráðarblanda aðgengileg, Þakkargjörð og meira - kalkúnakryddblanda, Jólin, jólin allstaðar - jólaglöggsblanda, Grafin en ekki gleymur - graflaxblanda og svo þessi blanda sem er hugsuð á spriklandi ferskan fisk - Frá fjarlægum höfum - kryddblanda á fisk.

 

Eldsnöggur lax frá fjarlægum löndum með mynturaitu í salatvefju

 

Og þetta er eins auðveldur réttur og hugsast getur - og fljótlegur.

 

Fyrir fjóra til sex

 

1 laxaflak (sirka 1,2 kg)

2-3 msk jómfrúarolía

1-2 msk Frá fjarlægum höfum - kryddblanda á fisk

salt og pipar

 

200 ml grísk jógúrt

1/2 kjarnhreinsuð agúrka

handfylli mynta

1 msk hunang

1 msk hvítlauksolía

salt og pipar

 

icebergsalat

 

 

Það ina sem þarf að gera við laxinn er að skola hann og þerra. Leggja hann svo á eldfast mót (ég lagði hann á álpappír til að minnka uppþvottinn á eftir). 

 

Næsta skref er að leysa kryddið upp í jómfrúarolíunni, smakka til með salti og pipar og pensla svo laxinn vandlega með blöndunni.

 

Hitið ofninn í um 225 gráður og bakið laxinn í um 20 mínútur - þangað til að hann er eldaður í gegn. Ef flakið er þunnt þá mun það auðvitað taka styttri tíma.

 

 

Raita er köld sósa sem er notuð til að kæla niður bragðmikinn eða bragðsterkan mat. Í hana má auðvitað setja hvaða grænmeti eða ávexti sem er. Ég ákvað að fara hefðbundna leið þar sem ég vildi leyfa kryddblöndunni minni að njóta sín.

 

Ég skrapa alltaf kjarnan úr gúrkunni - hann er vatnsmestur og bragðminnstur. Restina saxa ég niður og blanda við grísku jógúrtina.

 

 

Svo er að skera gróflega (eða bara rífa niður) ferska myntu. Svo er sósan bragðbætt með heimagerðri hvítlauksolíu, hunangi, salti og pipar.

 

 

Ilmurinn í eldhúsinu varð hreinlega kyngimagnaður þegar laxinn var tekinn út úr ofninum.

 

 

Það er aldrei leiðinlegt að smakka á góðu léttvíni með góðum mat. Bonterra er bandarískt Sauvignion Blanc sem er ljómandi hvítvínssopi. Fullt af sítrus í nefi og svo ljúft ávaxtabragð á tungu með eftirbragði í góðu jafnvægi.

 

 

 

Svo var laxinum komið fyrir í salatblaði, með fullt af raitu og svo bitið í - og notið! 

 

Fljótleg fiskiveisla á grillinu; Chilimarineruð hrefna og klausturbleikja

$
0
0

Við fórum í vikufrí í síðustu viku og eins og margir samlandar þá tókum við stefnuna á Tenerife. Við gistum á ágætu hóteli á amerísku ströndinni. Við bókuðum "allt innifalið" - eitthvað sem við höfum aldrei gert áður - þvílíkur lúxus. Maturinn var fjölbreyttur og ljómandi góður, vínið var í góðu lagi og ekki gat ég kvartað undan skorti á ísköldum bjór á sjóðheitum sumardegi. Þetta var nákvæmlega fríið sem fjölskyldan þurfti - við yfirgáfum varla hótelið - heldur lékum okkur við laugina, lásum bækur, spiluðum borðtennis, skruppum í ræktina og marineruðumst í sólinni. Ég kom alltént endurnærður til baka.

 

Og það var gaman að snúa aftur í vinnuna eftir stutt en þó gott frí. Nýja bráðalyflækningadeildin hefur farið það vel af stað að biðtími á bráðamóttökunni hefur minnkað um 30-50%. Þá hefur einnig tekist að útskrifa helming þeirra sjúklinga sem leggjast inn á innan við tveimur sólarhringum - og það án þess að öryggi sjúklinga sé ógnað. Það er nú höfuðmálið - að þeim batni eins og framast er kostur. Svo fékk ég einnig ómtæki afhent á Klíníkinni í Ármúla og það mun hjálpa við að lyfta gigtarlækningum á ennþá hærra plan. Spennandi tímar sumsé.

 

En þetta blogg er jú um mat - þannig að við skulum snúa okkur að málefni dagins. Þó að kjöt sé í uppáhaldi margra grillara þá er gott að breyta út af og grilla eitthvað annað eins og t.d. fisk. Það er fjöldi fisktegunda sem hentar ljómandi vel á grillið og kjörið að prófa sig áfram.

 

Ég hef lengi verið beggja blands varðandi hvalkjöt. Þó að ég sé þeirrar skoðunar að við eigum að hafa þann rétt að nýta auðlindir okkar með skynsömum hætti þá virðast hvalveiðar okkar stuða marga í alþjóðasamfélaginu. Ég hef því sveiflast fram og tilbaka í afstöðu minni til hvalveiða í gegnum árin. En hvað sem því líður þá varð ég eiginlega að prófa þegar ég sá þessa myndarlegu hrefnusteik í borðinu hjá vinum mínum í Fiskbúðinni á Sundlaugaveginum.

 

Fljótleg fiskiveisla á grillinu; Chilimarineruð hrefna og klausturbleikja

 

Og þetta er leiftursnögg eldamennska.

 

300 g hrefnusteik

700 g klausturbleikja

50 ml soyasósa

2 msk fljótandi hunang

3 msk jómfrúarólía

2 hvítlauksrif

5 cm af engifer

1 rauður chili

2 msk smátt skorin ferskur kóríander

salt og pipar

 

 

 

Hrefnusteikin er fallegur kjötbiti. Hún ilmaði eins og hafið - engin lýsisbræla sem hún er svo oft sökuð um.

 

 

Ég hellti soya sósunni yfir, ásamt hunangi, olíu, smátt skornu hvítlauksrifi, chili og engifer og að lokum salt og pipar.

 

 

Notaði helminginn af blöndunni á bleikjuna.

 

 

Svo var bara að grilla hrefnuna.

 

 

Og bleikjuna. Ég var ekkert að snúa flökunum - heldur lét ég roðið bara verja þau frá því að brenna.

 

 

 

 

Notaði afganginn af marineringunni til að pensla kjötið. 

 

 

Ég náði bleikjunni af í heilu með því að renna henni af roðinu, sem hafði festst við grillið.

 

 

 

Við bárum hrefnuna fram með soðnum hrísgrjónum og salati. 

 

Svo áttum við einnig til opna flösku af þessu ljómandi góða hvítvíni - Gato Negro 9 Lives Reserve Sauvignion blanc. Ég smakkaði þetta vín fyrst á vínkynningu í Marshallhúsinu fyrr í þessum mánuði. Þetta er "premium" lína frá sömu framleiðendum sem framleiða hið vinsæla Gato Negro vín - svarta köttinn - sem notið hefur mikilla vinsælda í Skandinavíu. Þetta er vín ilmar líflega af ávexti, sama á tungu, þurr og stökkur ávöxtur - trópískur með fínu eftirbragði. 

 

 

Það er rosalega gott að bera fram raitu - einfalda jógúrtsósu - með þessum rétti;

 

Klassísk raita

 

250 ml grísk jógúrt

1/2 agúrka

handfylli fersk mynta

1 hvítlauksrif

safi úr 1/2 sítrónu

1 msk síróp

salt og pipar

 

 

Raita er ofur einföld jógúrtsósa; Setjið jógúrt í skál og blandið saman við maukuðu hvítlauksrifi, smátt skorinni myntu, saxaðri kjarnhreinsaðri gúrku, sírópi, salti og pipar. Smakkað til!

 

 

 

Ragga Lára var mjög ánægð með matinn - og það vorum við hin líka. 

 

Fljótleg fiskiveisla á grillinu í miðri viku. 

Heilgrillað lamb með markóskum draumum - með hummus, chilitómatsósu, salati og marineruðum fetaosti

$
0
0

 

Við fluttum heim fyrir rétt tæplega ári síðan. Og það er óhætt að segja að þetta ár hafi liðið leifturhratt. Maður verður stundum orðlaus yfir því hvað tíminn leyfir sér að líða. Börnunum okkar hefur gengið vel að aðlagast aðstæðum; Valdís byrjaði í Menntaskólanum við Hamrahlíð og gengur ljómandi, Vilhjálmur unir sér vel í Ártúnsskóla og Ragnhildur Lára brosir út að eyrum. Snædís kláraði framhaldsnámið sitt - og fer til Englands að viku liðinni til að útskrifast. 

 

Fyrir ári síðan kom gámurinn okkar frá Svíþjóð í götunni okkar á Ártúnsholtinu. Við vorum í Englandi þannig að foreldrar mínir hóuðu saman vinum og ættingjum og gámurinn var tæmdur á mettíma. Við ætluðum auðvitað að vera löngu búin að blása til veislu og þakka þessu dásamlega fólki fyrir - en svona fór það - ári síðar komum við saman í Urriðakvíslinni og skáluðum. 

 

Heilgrillað lamb með marokkóskum draumum - ásamt hummus, chilitómatsósu, hvítlaukssósu, salati og marineruðum fetaosti

 

Og við gerðum gott betur en það - við heilgrilluðum lamb. Og það er ótrúlega gaman - það vekur svo mikla undrun hjá gestum, sérstaklega börnum sem reka upp stór augu þegar þau sjá að kjötið kemur raunverulega af heilum skeppnum. 

 

Fyrir 40 

 

1 lambaskrokkur

1 l jómfrúarolía

1 staukur marokkóskir draumar

Salt og pipar

 

3 hvítir laukar

10 hvítlauksrif

5 msk jómfrúarolía

3 rauðir chilipiprar

5 dósir tómatar

1/2 túba tómatpúré

tabaskó

salt og pipar

 

4 dósir kjúklingabaunir

4 msk tahini

safi úr tveimur sítrónum

6 hvítlauksrif

salt og pipar

500 ml jómrúarolía

 

400 g fetaostur

handfylli rósapipar

1 rauður laukur

handfylli steinselja og mynta

salt og pipar

 

Nóg af tortillum

 

 

Byrjið á því að skola skrokkinn og þerra. 

 

 

Við notuðum kryddblönduna sem ég útbjó með Krydd og tehúsinu - þetta er blanda sem ég útbjó fyrir bókina mína, Grillveisluna, sem kom út í fyrra. Hún er sérstaklega ljúffeng. Þetta er blanda úr papríkudufti, broddkúmeni, engifer, pipar og fleira góðgæti. Hún er einstaklega góð á lamb og kjúkling. 

 

 

Fyrst er að þræða lambið upp á spjót. Ég á mótorknúið spjót sem ég keypti í Svíþjóð sem er ansi þægilegt.

 

Ég blandaði heilum stauk af marokkóskum draumum saman við jómfrúarolíuna og penslaði í þykku lagi á allt lambið.

 

 

 

Svo er gott að fá svona vanan grillmann til að hjálpa sér - Tómas Hermannsson, bókaútgefandi. Hann hefur heilgrillað lamb mörgum sinnum.

 

 

Það skiptir miklu máli að stjórna hitanum eins vel og maður getur. 

 

 

Þegar lambið fór að brúnast heldur mikið á slögunum - klæddum við lambið í pils.

 

 

Eftir þrjá og hálfan tíma var kjötið tilbúið!

 

 

Maður þarf fyrst að skoða það aðeins. Að mínu mati reyndist það vera fullkomlega eldað.

 

 

Svo er bara að skera.

 

 

Og skera meira!

 

 

Svo er um að gera að hafa þennan mann, Ingvar Sigurgeirsson, föður minn og svo einnig bróður minn, Kjartan innan handar til að hjálpa til við að snara meðlætinu fram á mettíma. 

 

 

Skerið laukinn, hvítlaukinn, chilipiparinn niður gróft og steikið í olíu. Saltið og piprið. Hellið tómatinum, púréinu útí og sjóðið upp. Bragðbætið með salti, pipar og tabaskó. 

 

 

Setjið fetaostinn í skál og hellið jómfrúarolíu yfir. Þessi mynd var tekin úr bókinni minni - þar sem ég marineraði með ólífum og kapers. En fyrir veisluna notaði ég rósapipar og rauðlauk. 

 

 

 

 

Hummus er eins einfaldur og hugsast getur. Kjúklingabaununum, tahini og hvítlauk er blandað saman í matvinnsluvél. Svo hellir maður olíunni þangað til að hummusinn fær þá þykkt sem óskað er eftir. Næst sítrónusafa og svo er saltað og piprað

 

 

 

Skerið grænmetið niður - og blandið saman við salatið. 

 

 

Við vorum með fína fordrykki - Gin og grape - sem sló heldur betur í gegn! 

 

 

Nóg af bjór - það er nauðsynlegt þegar maður er með grillveislu. 

 

 

Svo vorum við með Masi Modello - rauðvín frá svæðunum í kringum Veróna. Þetta er vín sem er auðvelt að drekka og passar ljómandi vel með bragðríkum mat eins og við vorum að bera fram. 

 

 

 

Svo er bara að njóta. Rista tortilluna á grillinu og leggja á disk, svo chilitómatsósu, lambið, hummus, salat og marineraðan fetaost. 

 

Hreinasta sælgæti!

 

 

 

 

Rotisserie kjúklingur á grillinu heimsóttur aftur - með besta grillnuddinu á markaðnum!

$
0
0

 

Það er ósjaldan að ég elda kjúkling á sunnudagskvöldum. Og ég held að ég hafi prófað að elda kjúkling á vel flesta vegu og ég er nokkuð sannfærður um að ég hafi ratað á bestu aðferðina. Fjölskyldumeðlimir og þá sérstaklega eiginkona mín, Snædís, er einstaklega hrifin af þessari aðferð sem ég komst upp á lag með fyrir nokkrum árum síðan og hef haldið mig við. 

 

Ég kynntist þessari eldunaraðferð þegar ég var á ferðalagi á Spáni fyrir einum 15 árum. Þá keyrði maður víða framhjá stöðum sem auglýstu Pollos Asados. Ég skrifaði um þetta fyrst 2011 og hafði þá þetta að segja; 

 

Ég man þegar ég smakkaði þetta í fyrsta skipti. Hvílíkt og annað eins hvað kjúklingurinn var safaríkur og húðin stökk og knassandi góð - nánast eins og mjúkt kex og kjötið lungamjúkt. Ég stoppaði við á veitingastaðnum í smástund og fylgdist með þeim elda, sá hvernig þeir söfnuðu fitunni/vökvanum sem rann af kjúklingum í rennu og reglubundið pensluðu fuglinn með vökvanum. Djísus ... hvað mér fannst þetta gott... já, og finnst ennþá!

 

Og núna finnst mér enn skemmtilegra að elda þennan rétt þegar ég krydda hann með eigin kryddblöndu sem nú fæst í öllum betri verslunum (í Melabúðinni, Hagkaupum og auðvitað í Krydd og Tehúsinu). Þeir sem búa úti á landi geta pantað kryddblöndurnar mínar á netinu og fengið það sent í pósti - kíkið á heimasíðuna hjá Krydd og Tehúsinu og hendið í eina pöntun. 

 

Og þessi kvöldverður var sérstaklega skemmtilegur. Prófessorinn minn í Lundi, Anders Bengtsson, var í heimsókn á Íslandi ásamt dóttur sinni, Sögu, og við buðum þeim í heimsókn. Ég sá ekki betur en að þau hafi verið himinlifandi með máltíðina. 

 

Rotisserie kjúklingur á grillinu heimsóttur aftur - með besta grillnuddinu á markaðnum! 

 

Fyrir 6-8

 

3 kjúklingar

6 msk jómfrúarolía

3 msk klassískt grillnudd (frá Krydd og Tehúsinu í samstarfi við Lækninn í Eldhúsinu) 

salt og pipar

 

1/2 hvítkálshaus

2 stórar gulrætur

2 græn epli

1 dl appelsínusafi 

4 msk majónes

safi úr heilli sítrónu

2 msk hlynsíróp (má sleppa) 

salt og pipar 

 

250 g sveppir

1 gulur laukur

3 hvítlauksrif

50 g smjör

2 lárviðarlauf

5 greinar ferskt timjan

150 ml hvítvín

500 ml kjúklingasoð

250 ml rjómi

 

 

Byrjið á því að skola kjúklinginn vel og vandlega upp úr köldu vatni. 

 

 

Þræðið kjúklinginn upp á spjót og skorðið hann vandlega á teininum. 

 

 

Nuddið kjúklingum upp úr jómfrúarolíunni, svo klassíska grillnuddinu og saltið svo piprið ríkulega. 

 

 

 

Hitið grillið þannig að það sé á blússi. Fjarlægið grindurnar og setjið ofnskúffu ofan á brennarana og hellið vatni eða soði í skúffuna.

 

 

Komið kjúklingum fyrir og eldið þangað til að kjarnhiti er kominn í 72 gráður.

 

 

Á meðan kjúklingurinn er að grillast þá er gott að byrja á sósunni. Þessi uppskrift er gullsins virði - sjá hérna

 

 

Flysjið grænmetið og rífið í matvinnsluvél. Blandið saman í skál. Hrærið saman majónesi, appelsínusafa, sítrónusafa, hlynsírópi og saltið og piprið.

 

 

Með matnum drukkum við ljúffengt vín frá Spáni; Ramon Bilboa Gran Reserva frá 2010. Þetta er spánskt vín sem er gert að mestu úr Tempranillo þrúgum eins og flest Roija vín nema í þetta vín er blandað smávegis af Graciano og Mazuela þrúgum. Það er fallega rautt á litinn, á nefi með þroskaðan ávöxt - vínber og kirsuber. Sama á tungu nema kryddað með djúpu eftirbragði.

 

 

Þetta reyndist sannkölluð veislumáltíð. 

 

Prófessorinn, dóttirinn, lærlingurinn og fjölskylda hans voru alltént mjög hrifin. 

 

Bon appetit! 

 

 


Dásamlegt og eldsnöggt taílensk nautasalat með chilli, radísum og seiðandi kryddjurtum.

$
0
0

 

Ég rakst á þessa uppskrift í bók sem ég pantaði nýlega á Amazon - Prime: The Beef Cookbook eftir Richard H. Turner. Þetta er ótrúlega girnileg bók og það er eiginlega svo að mann langar til að laga hverja einustu uppskrift í bókinni. Ég fór þó að sjálfsögðu ekki alveg eftir uppskriftinni - en hafði hana til hliðsjónar - þannig finnst mér best að nota matreiðslubækur, sem innblástur, til að gefa mér hugmyndir um eitthvað sem mig langar til að þróa áfram.

 

 

Þetta er nokkuð þekkt uppskrift og hún er til í ótal útgáfum. Þetta er salat fyrir kjötætur - þarna eru ljúffengar marineraðar þunnt skornar kjötsneiðar umvafðar fersku grænmeti og frískandi kryddjurtum. Og fyrir forfallna kjötætu þá er þetta salat að mínu skapi - auðvitað er ég alæta (omnivore) en mér finnst erfitt að hugsa mér lífstíl þar sem ég skerði kost minn svo að ég borði einvörðungu grænmeti (vegetarian), hvað þá að gerast vegan. Ekki að ég hafi nokkuð á móti fólki sem velur að sleppa því að borða kjöt, fisk eða fugl eða velur ákveðnar afurðir sem það kýs að sleppa úr matarræði sínu. Það er fegurð í fjölbreytileikanum!

 

Við kjötæturnar verðum þó að horfast í augu við þá staðreynd að til þess að við njótum kjöts þarf einhvað dýr að láta lífið. Og mér finnst auðveldara að borða kjöt af dýri sem ég veit að hefur lifað góðu lífi, eins og íslenska lambið og íslenska nautið. Og þó að nokkrir grísa- og kjúklingaframleiðendur komi vel fram við skepnur sínar er langt í land að þetta sé í nægilega góðu lagi. Þarna þarf að gera bragarbót á því ég er sannfærður að flestir neytendur vilja að farið sé vel með dýrin sem við ætlum síðan að leggja okkur til munns. Er það ekki?

 

Dásamlegt og eldsnöggt taílensk nautasalat með chilli, radísum og seiðandi kryddjurtum

 

 

Kosturinn við þessa uppskrift er ekki bara hversu ljúffeng og falleg hún er - hún er einnig fljótleg. Marineringin er fljótgerð og ekki þarf að marinera kjötið lengi - bara þann tíma sem tekur grillið að hitna. Og áður en maður veit af er komin veisla.

 

 

 

Fyrir fjóra

 

Hráefnalisti

 

600 g nauta ribeye

1/2 rauðlaukur

5 radísur

75 g blandað salat (einn poki)

250 g kirsuberjatómatar

1/2 agúrka

1/2 gulrót

handfylli ristaðar salthnetur

1 msk sesamfræ

1 rauður chili

handfylli basil

handfylli mynta

handfylli kóríander

 

4 msk jómfrúarolía

2 msk ferskur sítrónusafi

2 hvítlauksrif

5 cm engifer

1/2 rauður chili

1 msk nam plah (fiskisósa)

2 msk soyasósa

1 msk sesamolía

1 msk hlynsíróp

salt og pipar

 

 

Byrjið á því að skera kjötið í þunnar sneiðar

 

 

Hakkið hvítlaukinn og engiferið í matvinnsluvél eða með rifjárni, eða bara skerið hann smátt niður. Bætið chilipiparnum, soyasósunni, fiskisósunni, sítrónusafanum, hlynsírópinu, sesamolíu og salti og pipar og blandið vel saman.

 

 

Ég setti svolítið af marineringunni á disk og lagði svo kjötsneiðarnar ofan á. Mér fannst ég vera rosalega sniðugur að hafa fundið upp svona tímasparandi aðferð til marineringar.

 

 

Setjið svo nóg af marineringu ofan á kjötsneiðarnar og látið marinerast í 15 mínútur á meðan grillið hitnar. 

 

 

Sneiðið grænmetið niður næfurþunnt.

 

 

Grillið það svo í mínútu eða svo á hvorri hlið rétt til að brúna það að utan.

 

 

Látið það svo hvíla um stund, og kólna aðeins, áður en það er lagt ofan á salatið.

 

 

Það er um að gera að nota sólardagana til að njóta lífssins. Ég er einkar hrifinn af Piccini Memoro vínunum - og varð ennþá hrifnari af þeim þegar ég heimsótti vínekrurnar þeirra í vor og var meira að segja boðið út að borða af Piccini fjölskyldunni. Segi ykkur meira frá því fljótlega. Þetta rósavín frá Piccini er einstaklega ljúffengt - það er fallegt á litin, ávaxtaríkt og létt - og passar fullkomlega á svona sumardögum.

 

 

Svo er bara að raða salatinu saman. Fyrst græn lauf, kirsuberjatómata í helmingum. Leggja svo kjötið ofan á. 

 

 

Því næst gulrætur sem ég flysjaði niður, þunnts neiddan rauðlauk, radísur, chili og salthnetur.

 

 

Að lokum dreifði ég restinni af marineringunni yfir salatið, svo þurrristuðum sesamfræjum og svo fullt af ferskum kryddjurtum. 

 

 

Ekkert eftir nema að skála og njóta! 

 

Bon appetit! 

 

Eldsnöggur thai-kræklingur með engifer, hvítlauk, chilli og kókósmjólk

$
0
0

 

Það eru margir kostir við að búa á Íslandi. Listinn er auðvitað langur, en til að tengja þessa fullyrðingu við þessa færslu þá hefur það auðvitað að gera með sjávarfangið sem okkur stendur til boða. Það er, eins og flestir vita, framúrskarandi. Í dag býðst okkur svo gott úrval af spriklandi ferskum fiski.

 

Ég er mjög hrifinn af kræklingi enda hefur hann komið fyrir nokkrum sinnum á blogginu mínu í gegnum árin. Börnin mín eru líka hrifin af honum, meira að segja sú minnsta - Ragnhildur Lára, gæddi sér á nokkrum bitum áður en hún afþakkaði pent og bað um jógúrt.

 

Kræklingurinn sem við kaupum út í búð er ræktaður, það er auðvitað hægt að týna hann í fjörum suma mánuði ársins, en auðveldast er að ná í hann út í fiskbúð - ég sótti þennan í fiskbúðina mína á Sundlaugaveginum. Það er líka gjarnan talað um að ræktaður kræklingur sé betri en sá sem er villtur - ég satt að segja veit ekki svarið þar sem það er svo langt síðan að ég fékk hann villtan seinast. En ljúffengur er hann úr fiskborðinu!

 

Eldsnöggur thai-kræklingur með engifer, hvítlauk og kókósmjólk

 

Svo er það líka augljós kostur við krækling er hversu fljótlegt er að elda hann. - Þetta er máltíð sem tekur undir 7 mínútur, "from start to finish".

 

Veðrið var líka dásamlegt þannig að það var líka gaman að elda úti undir berum sumarhimni.

 

Hráefnalisti

 

1 kg kræklingur

5 cm engifer

4 hvítlauksrif

1 skalottulaukur

1 lítill púrrlaukur

1 dós kókósmjól

100 ml hvítvín

safi úr hálfri sítrónu

jómfrúarólía

steinselja eða kóríander

salt og pipar

 

 

Skerið engiferin, chilipiparinn og alla laukana smátt niður og steikið í tvær mínútur í heitri olíunni. 

 

 

Verið búin að skola kræklinginn. Hendið opinni eða skemmdri skel. Ef skelin er smávegis opin er gott að banka aðeins í hana - ef hún lokar sér er hún lifandi og í lagi að borða hana.

 

Skellið henni á pönnuna með hinum hráefnunum og blandið vel saman.

 

 

Ég átti smá afgang af þessu ljúffenga víni í kæli sem var kjörið að nota í matinn (auðvitað hefði verið ennþá betra að drekka það - en maður á alltaf að nota vín sem manni finnst gott í matinn). 

 

Sjóðið upp áfengið og látið það krauma í mínútu eða svo. 

 

 

Næst smá sítrónusafi.

 

 

Skellið svo kókosmjólkinni samanvið og blandið vandlega saman.

 

 

Saxið svo steinseljuna (notið kóríander - ef maki ykkar þolir það) og sáldrið yfir.

 

 

Þetta var fallegur sumardagur og því kjörinn dagur fyrir rósavín. Ég átti Filarino Sangiovese sem er rósavín frá Ítalíu - þetta vín er fallegt í glasi - fölleitur rósalitur. Ilmurinn er léttur og blómakenndur og bragðið sömuleiðis. Passaði fullkomlega með kræklingnum. 

 

 

Bon appetit!

Grillaðir humarhalar með bestu hvítlaukssósu allra tíma og piparosta-ostabrauði

$
0
0

Í þessari færslu er eiginlega sósan sem leikur aðalhlutverkið. Og það er vegna þess að ég held bara að mér hafi tekist að gera bestu hvítlaukssósu sem ég hef bragðað. Og það er ekki eins og humarinn og piparosta-hvítlauksbrauðið hafi ekki verið ljúffengt - sósan var barasta algerlega dásamlega ljúffeng!

 

Og það tókst með því að ofnbaka hvítlaukinn í álpappír. Þannig umbreytist hann alveg - og það heita og sterka bragð sem oft einkennir hvítlauk mildast og en í staðinn koma sætir tónarnir og ljúfu jafnvægi náð.

 

Grillaðir humarhalar með bestu hvítlaukssósu allra tíma og piparosta-ostabrauði

 

 

Hráefnalisti

 

Fyrir fjóra

 

Fyrir sósuna

 

1 hvítlaukur

2 msk jómfrúarolía

salt og pipar

1 dós sýrður rjómi

2 msk grísk jógúrt

2 msk mæjónes

1 tsk hlynsíróp

3 msk graslaukur

salt og pipar

 

Fyrir humarinn 

 

Humar

hvítlauksolía

salt og pipar

 

Fyrir piparostsosta hvítlauksbrauð

 

1 baguetta

hvítlauksolía

1 piparostur

rifinn ostur eftir smekk

salt og pipar

 

Byrjum á byrjuninni; Hvítlaukssósan guðdómlega. 

 

 

Byrjið á því að setja heilan hvítlauk á álpappír og hella olíunni yfir og saltið. Innsiglið og bakið í 180 gráðu heitum ofni í 50 mínútur. 

 

 

Leyfið lauknum að kólna aðeins áður en þið farið að meðhöndla hann þar sem hann er ákaflega heitur. 

 

 

Á meðan hvítlaukurinn er að kólna setjið þið heila dós af sýrðum rjóma í skál.

 

 

Hrærið sýrða rjómann saman við tvær matskeiðar af grískri jógúrt og svo sama magni af mæjónesi og hrærið vel saman.

 

 

Hakkið graslaukinn ... 

 

 

... og blandið honum saman ásamt öllum hvítlauknum - sem auðvelt er að kreista úr hýði sínu.

 

 

 

 

Klippið humarinn upp eftir bakinu og hreinsið görnina frá og leggið humarhalann ofan á skelina.

 

 

 

Penslið humarinn ríkulega með hvítlauksolíu, salti og pipar. Grillið í fimm til sex mínútur á blússheitu grilli eða inni í ofni.

 

 

 

Skerið baguettuna í tvennt, penslið með hvítlauksolíu, sneiðið piparostinn þunnt og leggið á brauðið. Setjið því næst rifinn ost ofan á og grillið í ofninum í nokkrar mínútur þangað til að osturinn er bráðinn.

 

 

Svo er bara að leggja þessa dásemd á disk og njóta - grillaður humar, dásamlegt piparosta-ostabrauð og nóg af þessari dásamlegu hvítlaukssósu.

 

Ljúffenga lúðusúpan, innblásin af Mat og drykk með basilolíu og sýrðum eplum

$
0
0

Síðan að við fluttum heim til Íslands hef ég í tvígang farið út að borða á veitinahúsið Mat og drykk úti á Granda. Og í bæði skiptin hefur það verið sérlega ánægjulegt. Í fyrra skiptið fórum við hjónin með nokkrum evrópskum vinum okkar og átum okkur í gegnum ólíka mat og vínseðla - allir voru himinlifandi - í fyrra skiptið át ég mig í gegnum sjávarréttamatseðilinn, í það síðara í snæddi ég íslenska matseðilinn, og fékk þá að smakka hina rómuðu lúðusúpu þeirra í bæði skiptin. 

 

Ég heyrði, reyndar sá, þessa súpu fyrst þegar ég var að horfa á þátt með Rick Stein, sem er breskur sjónvarpskokkur, þar sem hann var á ferð á Íslandi og heimsótti Mat og drykk og fékk sýnikennslu á því hvernig þessi súpa var elduð. Og ekki var hún sérlega flókin - en mjög skemmtilega útfærð. 

 

Þannig að eftir að hafa smakkað og notið hennar í tvígang - var ekkert sem ætti að hindra að reyna sína eigin útgáfu - innblásna af kokkunum á Mat og drykk

 

Ég fór að sjálfsögðu til vina minna í Fiskbúðinni á Sundlaugaveginum og keypti allt fiskmeti í súpuna. 

 

Ljúffenga lúðusúpan innblásin af Mat og drykk með basilolíu og sýrðum eplum

 

Þessi súpa er ekki gerð eftir þeirra uppskrift - heldur minni túlkun á því sem ég bragðaði hjá þeim. 

 

Hráefnaefnalisti

 

1 gulur laukur

2 sellerístangir

2 gulrætur

3 hvítlauksrif

2 stjörnuanísar

2 lárviðarlauf

handfylli af humarskeljum

bein af 1 kg af þverskorinni lúðu

500 ml vatn

150 ml hvítvín 

250 ml rjómi

500 g lúða

200 g rækjur

1 grænt epli

100 ml eplasíderedik

50 ml jómfrúarolía

handfylli basil 

200 g smjör

250 ml kjúklingasoð

salt og pipar

 

 

Byrjið á því að undirbúa soðið. Það er ákaflega einfalt - flysjið og skerið lauk, gulrætur, sellerí og hvítlauk niður smátt og steikið í jómfrúarolíu eða smjöri - þangað til að grænmetið er orðið mjúkt. Bætið þá stjörnuanís, lárviðarlaufum saman við, ásamt handfylli af humarskeljum (sé það fyrir hendi). Skerið næst lúðuna niður - þannig að þið aðskiljið kjötið frá beinunum. Bætið beinunum saman við grænmetið. 

 

Steikið um stund og bætið svo hvítvíni saman við og sjóðið áfengið upp. Bætið svo vatninu við og sjóðið í 30 mínútur. Ekki þarf að sjóða fiskisoðið lengur en þetta. Það verður ekki betra fyrir vikið. 

 

Síið soðið í gegnum sigtið, hellið svo rjóma saman við og sjóðið upp. Smakkið til með salti, pipar og jafnvel krafti eins og við á. 

 

 

Næst er að huga að öðrum hlutum súpunnar. Takið handfylli af fersku basil og setjið í glas.

 

 

Bætið svo jómfrúarolíu við ferska basilið - og tætið með hakkara þannig að basilið blandist vel saman við olíuna. 

 

Næst er að huga að eplunum. Flysjið þau og skerið í litla bita og setjið í skál og hellið heitu eplasíderediki yfir og látið standa í 15 mínútur. 

 

 

Raðið nokkrum rækjum í súpuskál og nokkrum eplum í kring. 

 

 

Skerið því næst lúðuna í munnbitastóra bita. Bræðið smjörið í potti og hellið svo heitu kjúkingasoði út í. Hrærið saman. Sjóðið svo lúðubitana í smjörinu og kjúklingasoðinu í tvær til þrjár mínútur. 

 

 

Tyllið svo lúðubitunum í hverja skál. 

 

 

Með matnum drukkum við þetta ágætis hvítvín - þetta er ítalskt vín frá Piccini sem er gert á svipaðan hátt á rauða vínið þeirra. Þrúgum er safnað saman frá fjórum vínekrum frá fjórum hornum Ítalíu. Þetta er ljómandi gott vín - sér í lagi miðað við það sem maður greiðir fyrir sopann. Þetta er ávaxtaríkt vín á tungu, með smá hnetukeim með ágætu sítrónueftirbragði. 

 

 

Svo er ekkert annað að gera en að hella heitri súpunni yfir ferskar rækjurnar, lúðuna og eplin - og sáldra nokkrum dropum af basilolíunni yfir, skreyta með fersku basil - og þá - og þá er komin veisla. 

 

Bon appetit! 

 

 

Ljómandi Klausturbleikja á fjölskrúðugu grænmetisbeði með hvítvínslagaðri rjómasósu

$
0
0

 

Þessi réttur er ljómandi - hann er fljótlegur, einfaldur og að auki er lítill frágangur þar sem hann er allur eldaður í einni pönnu. Ég hef verið frekar duglegur við að elda fisk síðastliðnar vikur og reynt að elda hann oftar í viku en ég hef vanið mig á áður. Ástæða þess er ekki bara vegna þess að hann er fljótlegur, ferskur og ljúffengur heldur að ég hef verið að prófa mig áfram að fylgja matarræði kenndu við bók sem ég hef verið að lesa undanfarið - The Pioppi Diet.

 

Í fyrra kynntist ég Aseem Malhotra, breskum hjartalækni, sem kom og hélt erindi á ráðstefnu sem vinur minn og kollegi, Guðmundur Freyr, stóð fyrir - Foodloose. Ég var með matreiðslunámskeið í tengslum við þessa ráðstefnu og kollegar mínir tóku báðir þátt. Dr. Malhotra hefur fengið síaukna umfjöllun í breskum dagblöðum vegna afstöðu sinnar til matarræðis og sjúkdóma. Hann gaf út bók nú fyrir skemmstu þar sem hann færir nokkuð sannfærandi rök fyrir máli sínu - The Pioppi Diet (Pioppi matarræðið) sem hann skrifar ásamt félaga sínum Donal O'Niell.

 

Og þó að ég kaupi ekki alveg að ítalskt matarræði sé eins og þeir eru að lýsa því (ekkert pasta og ekkert brauð) þá er boðskapur bókarinnar að mestu afar góður. Að borða alvöru mat, mikið grænmeti, meiri fisk og nóg af jómfrúarolíu. Hljómar vel í mínu eyru, og eiginkonu minnar - Snædísar sem er mikið fyrir sjávarfang. Og að verða sér út um ljúffengt sjávarfang er einfalt á Íslandi - Ég fer alltaf í Fiskbúðina á Sundlaugaveginum!

 

Ljómandi Klausturbleikja á fjölskrúðugu grænmetisbeði með hvítvínslagaðri rjómasósu

 

Ég keypti þennan "spirulizer" þegar ég var í USA fyrir ári á námskeiði í lyflækningum. Þetta er hentugt til að gera fallega borða úr grænmetinu. Fyrir þá sem langar að skipta pasta út fyrir eitthvað annað má nota þetta apparat til að skera út kúrbít eða sætar kartöflur og nota í staðinn fyrir spaghetti.

 

En mig langaði aðallega í fallegt beð af grænmeti og því ekki að nota nokkuð nýlegt leikfang sem ég hafði ekki verið nógu duglegur að leika mér með!

 

Hráefnalisti

 

Fyrir fimm

 

1 kg klausturbleikja.

2 kúrbítar

2 hnúðkál

2 stórar gulrætur

1 glas hvítvín

2 hvítlauksrif

100 ml fiskisoð

75 ml rjómi

1 tsk Worchestershiresósa

salt og pipar

3-4 msk jómfrúarolía

1 sítróna

1 msk fersk steinselja

 

 

 

Byrjið á því að skera grænmetið niður í borða (auðvitað má skera það niður á hvaða hátt sem er). Hitið olíuna á pönnu og þegar hún er heit steikið þá grænmetið í nokkrar mínútur. Saltið og piprið. 

 

 

Þegar grænmetið er mjúkt og eldhúsið ilmar dásamlega, hellið þið hvítvíninu á pönnuna og sjóðið upp áfengið. Bætið svo soðinu og rjómanum saman við og sjóðið niður um þriðjung. 

 

 

Skolið og þerrið bleikjuna og saltið hana og piprið.

 

 

Leggið bleikjuna ofan á grænmetið þannig að hún mari upp úr kafinu.

 

 

Setjið lok á pönnuna - eða hyljið hana með álpappír í nokkrar mínútur svo fiskurinn fái að eldast í gegn. 

 

 

Takið svo lokið af og stingið nokkrum sítrónubátum með inn á milli bleikjuflakanna.

 

 

 

 

Með matnum drukkum við Castillo di Molina Chardonnay Riserva frá því 2016. Ég man eftir að hafa smakkað þetta vín nokkrum sinnum á árum áður. Og ég man nú af hverju - þetta er ljómandi góður hvítvínssopi. Ilmar af ávexti, sýru - frísklegt og smjörkennt á bragðið - fellur afar vel að fiskrétti sem þessum.

 

 

 

 

Svo er bara að raða matnum á disk. Og njóta.

 

Fullkominn réttur þegar líða fer á vikuna.

 

Bon appetit!

 

 

 

 

Tvær dúndur paellur - Paella Islandia og Paella Valenciana - og foccacia í tilefni fertugs afmælis ástarinnar minnar

$
0
0

 

Það var haldið upp á fertugsafmæli ástkærrar eiginkonu minnar - Snædísar Evu, nú um helgina. Það var margt um manninn - ætli gestir hafi ekki verið um 80 talsins. Og það var stórkostlega gaman! Það var líka dásamlegt að finna alla vináttuna og kærleikan sem er í kringum okkur - allir boðnir og búnir til að aðstoða. Það er nefnilega heilmikil vinna að skella í eitt svona partí, setja upp tjald, redda borðum og stólum, glösum, mat og veigum - en okkar nánustu léttu svo sannarlega undir - þið eruð algerlega frábær - þið vitið hver þið eruð! 

 

En það að elda fyrir svona veislu er bara skemmtilegt. Ég og Ragga Lára byrjuðum um morguninn að baka brauð. Svo komu bróðir minn og pabbi og hjálpuðu mér að skera niður hráefnið. Planið var að vera með matinn tilbúinn klukkan sjö - Kolbrún, systir Snædísar, tók að sér veislustjórnina og var með skýra verkáætlun. Og það tókst næstum því - við vorum tólf mínútur eftir áætlun.

 

Tvær dúndur paellur - Paella Islandia og Paella Valenciana - og foccacia í tilefni fertugs afmælis ástarinnar minnar

 

Litla skottið mitt, Ragnhildur Lára, var ólm í að fá að hjálpa til - það flýtti ekki beint fyrir en það var miklu skemmtilegra að elda með hana. 

 

Þetta er uppskrift fyrir einfalda uppskrift. 

 

700 g hveiti

400 ml vatn 

12 g instantger

30 g salt

2 msk hunang

2 msk jómfrúarolía

handfylli ferskir kirsuberjatómatar

nokkrir sprotar af rósmaríni

4-5 msk hvítlauksolía

salt og pipar

 

 

Ég keypti stóran poka af hveiti - enda var ég að baka mörg brauð. Ég notaði 350 g af þessu á móti 350 g af Tipo 00 hveiti sem ég keypti í Brauð og Co. Af hverju keypti ég af þeim? Jú, af því að þeir gera besta brauð á Íslandi. Auðvitað hefði ég átt að gera súrdeig - en þar sem ég hafði bara hálfan dag til að gera þetta þá notaði ég instantger. Ég hefði auðvitað átt að byrja fyrr! 

 

 

Setjið öll þurrefni í skál og blandið saman. 

 

 

Fáið svo ákveðna fimm ára stúlku til að hella vatni og olíu saman við. Hnoðið saman í 10 mínútur og færið svo yfir í aðra skál, smurða með olíu og hyljið með viskastykki og látið hefjast í tvær til þrjár klukkustundir.

 

 

Smyrjið eldfast mót með jómfrúarolíu (eða hvítlauksolíu) og fletjið svo deigið út vandlega. Amma Lilja sá um að móta og gera flatbrauðin svona falleg.

 

 

Penslið deigið með hvítlauksolíu, búið til svona litla bolla í deigið með fingrunum þar sem hvítlauksolían getur safnast saman, troðið ferskum kirsuberjatómötum í sum götin og dreifið svo rósmaríngreinum yfir. Saltið og piprið.

 

 

Látið brauðið svo hefast aftur í 45 mínútur. Bakið svo í 200 gráðu heitum ofni í 25 mínútur. 

 

 

Takið brauðið úr ofninum á látið kólna í nokkrar mínútur áður en það er sneitt niður og sett í skálar. 

 

Paella Islandia

 

Fyrir 50 

 

5 kg hrísgrjón (ég notaði sushi grjón sem ég hafði skolað vel og vandlega)

4 lambaframpartar

4 msk yfir Holt og heiðar (kryddblanda merkt mér)

1,5 kg rauðvínssalami frá SS

1,5 kg sveppir

8 papríkur (blandaðir litir)

5 sellerísstangir

8 gulrætur

2 rauður laukar

1 heill hvítlaukur

8 l kjúklingasoð

2 l lambasoð

250 g smjör

100 ml jómfrúarolía

salt og pipar

3-4 handfylli blandaðar kryddjurtir (basil, steinselja)

 

Paella Valenciana

 

Þetta er auðvitað ekki klassísk uppskrift - en það er auðvitað til margir útgáfur af þessari paellu. Oftast er þó notuð chorizo pylsa sem ég fann ekki - og notaði því beikon í stað þess. 

 

Fyrir 40 

 

4 kg hrísgrjón

1 kg beikon

3 kg kjúklingur (leggir og læri)

8 l kjúklingasoð

8 papríkur (blandaðir litir)

3 púrrulaukar

5 sellerísstangir

8 gulrætur

2 rauður laukar

1 heill hvítlaukur

1 g saffran

1,5 kg kræklingur

1,5 kg risarækjur

6 sítrónur

salt og pipar

 

 

Ég þurfti að fá liðsauka í allan skurðinn - laukur, sellerí, gulrætur og hvítlaukur var hakkaður niður og sett í skálar. 

 

 

Ingvar, faðir minn, var ekki lengi að skera sig í gegnum 1,5 kg af sveppum. 

 

 

Ég ákvað að nota rauðvínssalami í "íslensku" paelluna - þetta er bragðmikil pylsa með rauðvínskeim sem er ljúffeng bara niðurskorinn - en er líka fantagóð steikt.

 

 

Ég pantaði fjóra framparta - hjá félögum mínum í SS - það voru nú hæg heimatökin að redda þessu.

 

 

Framparturinn er eiginlega minn uppáhaldsbiti - mér finnst hann alveg dásamlegur langeldaður - kjötið er vel fituríkt og það tryggir líka að lambabragðið skili sér.

 

 

Svo var bara að skerpa hnífana og bretta upp ermarnar og byrja að skera kjötið frá beinunum. Og það er miklu auðveldara en margir myndu kannski halda. Bara að elta beinið með beittum hnífsoddinum. 

 

 

Svo þarf reyna að hreinsa kjötið af beinunum eins og vel og maður getur. Beinin er gott að geyma til að nota t.d. í lambasoð. Eða bara til að velta upp úr smá olíu, salta og pipra og rista í blússheitum ofni þangað til að það hefur brúnast. Og svo er bara naga beinið!

 

 

Það næst fullt af kjöti af einum hrygg - bara að halda áfram þangað til að allir fjórir eru komnir. 

 

 

 

Fyrir íslensku paelluna bræddi ég smjör á pönnunni og svo karmellisseruðum við sveppina í um 20 mínútur. Gætið að salta og pipra. Síðan voru þeir settir til hliðar.

 

 

 

Næst var að krydda lambið með salti og pipar og svo þessari ljúffengu blöndu sem ég og Ólöf og Omry hjá Krydd og Tehúsinu erum að gera saman.

 

 

Næst er að brúna lambið að utan - og setja svo til hliðar. 

 

 

Fyrir Paella Valenciana byrjaði ég á því að steikja beikon í nóg af jómfrúarolíu og setja svo til hliðar.

 

 

Næst var að brúna kjúklinginn að utan vandlega. Auðvitað þarf að salta hann og pipra.

 

 

Rétt fyrir klukkan fjögur barst mér liðsauki. Kunningi minn Þorkell Harðarson lánaði mér paellupönnuna sína sem eru 90 cm í þvermál - það er sko hægt að elda á henni!

 

Fyrir þá íslensku byrjaði ég á því að brúna niðurskorna pylsuna vandlega.

 

 

Þá var að steikja allt grænmetið - fyrst laukinn, hvítlauk, sellerí, gulrætur og púrru þangað til að það var mjúkt og ilmandi.

 

 

Næst voru það papríkurnar - það er bara eitthvað sem gleður mann við að sjá alla þessa liti.

 

 

Gerði það sama á stóru pönnunni, nema hvað ég sleppti púrrunni. 

 

 

Svo ýtti ég öllu grænmetinu út í jaðranna. Setti svo hrísgrjónin á pönnuna.

 

 

Og svo er bara að blanda.

 

 

Blanda svo lambinu, sveppunum og pylsunum saman við íslensku paelluna.

 

 

Fyrir þá spænsku setti ég kjúklinginn, beikonið og svo saffranið saman við auk 8 lítra af kjúklingasoði.

 

 

Stóra pannan tók vandræðalaust við 10 l af soði.

 

 

Í þá spænsku bætti ég svo krækling sem ég fékk ferskan hjá Arnari í Fiskbúðinni á Sundlaugaveginum. Og svo risarækjum og sítrónum.

 

 

Fljótlega eftir að ég tók þessa mynd - bætti ég fullt af ferskum smátt söxuðum kryddjurtum - basil, steinselju og fersku oregano.

 

Svo þarf auðvitað að huga að veigunum.

 

 

Mér finnst gaman að kaupa nokkrar tegundir af bjór þegar ég er með veislur - ég var með Bola, Gull, Bríó og Tuborg Classic þannig að flestir fengu bjór við sitt hæfi. 

 

 

Þá fannst mér líka nauðsynlegt að hafa rauðvín með Paella Islandia og svo fannst mér hvítvín passa betur með Paella Valencia. Það var nú ekki flókið að velja vínið - ég hafði meira að segja heimsótt Piccini vínekruna í Toscana í vor. Það var sannarlega bragðgóð ferð og gaman að sitja og ræða um vínið og víngerð við fólkið sem framleiðir vínið. Báðar þessar flöskur eru það sem ég myndi kalla "bang for the buck" - þetta vín er aðgengilegt - auðvelt að njóta þess, ávaxaríkt á tungu með góðu eftirbragði á tungunni - svo er það líka á mjög aðgengilegu verði! 

 

Þetta var dúndurpartí. Það var borðað, skálað, hlegið, sungið, ræður, dansað, drukkið og svo var dansað ennþá meira. 

 

Til hamingju með árin fjörutíu, Snædís Eva, dísin mín! 

 

 

 

Hin nýja íslenska kjötsúpa- ljúft blæbrigði við klassískan rétt - með mirepoix, púrru, hnúðkáli, íslensku perlubyggi og ferskum kryddjurtum

$
0
0

 

Kjötsúpa er án efa einn af þeim réttum sem við gætum tilnefnt sem þjóðarrétt Íslendinga. Og hin sígilda uppskrift er auðvitað dásamlega góð - mild og saðsöm. Mér finnst hún eiginlega best á öðrum eða þriðja degi - þegar maður er að hita hana upp aftur - þá hefur allt ólíka bragðið í súpunni náð að blandast mun betur og ná ennþá meira jafnvægi og dýpt. 

 

En það ágæt að prófa að breyta af og til út af hefðunum - rétt til að prófa - stundum batnar uppskriftin lítillega og þá verður maður frekar glaður - og ef það heppnast ekki, þá er nú lítið mál að snúa til baka. 

 

Mér hefur alltaf þótt þurrkuðu súpujurtinar hálf dapurlegar. Það má vel vera að þær verði í lagi þegar þær eru búnar að liggja í heitu vatninu um stund en það eru engar líkur á því að þær séu betri en nýtt grænmeti. Og þegar það stendur okkur til boða - af hverju í ósköpunum ættum við að nota eitthvað sem er gamalt. 

 

Hin nýja íslenska kjötsúpa- ljúft blæbrigði við klassískan rétt - með mirepoix, púrru, hnúðkáli, íslensku perlubyggi og ferskum kryddjurtum

 

Þegar maður sækir að svona helgum vé er eins gott að maður mæti vel vopnaður, og þegar ég segi vopnaður á ég auðvitað við að ég sé með góð hráefni á takteinunum. 

 

Fyrir 10-12 

 

3 kg blandað súpukjöt

2 kg kartöflur

2 bollar perlubygg

4 handfylli grænkál

8 gulrætur

2 hnúðkál

1 púrra

2 rauðlaukar

2 sellerístangir

heill hvítlaukur

2 salvíugreinar

handfylli steinselja

10 einiber

1 msk blóðberg

lambakraftur eins og þarf

salt og pipar

Lea & Perrins Worchestershire sósa eftir smekk

smjör og olía til steikingar

 

 

Ég keypti tvo sagaða lambaframparta - skolaði þá undir krananum og þerraði vandlega. Saltaði ríkulega og pipraði.

 

 

Hitaði svo pottinn rækilega, bræddi smjör í smá skvettu af jómfrúarolíu og brúnaði kjötið að utan.

 

 

Skar rauðlauk, sellerí, þrjár gulrætur ásamt púrrunni og steikti í 10 mínútur þangað til grænmetið var mjúkt. Saltiði og pipraði.

 

 

Svo raðaði ég kjötinu aftur ofan í pottinn og blandaði vandlega saman við grænmetið.

 

 

Svo bætti ég meira vatni í pottinn, svo lambakrafti og hitaði varlega að suðu. Ég reyndi hvað ég gat að fleyta froðunni ofan af súpunni, þannig verður hún fallegri þegar hún er borin á borð.

 

 

Tvær til þrjár msk af blóðbergi var bætt saman við.

 

 

Nokkur ilmandi einiber.

 

 

 

Nokkur bragðmikil salvíublöð.

 

 

Og svo steinselja.

 

 

Og ekki gleyma hvítlauknum - hann gefur ljúfan hita í súpuna sem gerir ekkert annað en að mýkja upp í manni andann og bæta hjá manni andardráttinn.

 

 

Það er gott að leyfa þessari súpu að sjóða varlega í tvær klukkustundir eða svo. Þá er ágætt að hugleiða lífið og merkingu þess á meðan maður flysjar gulræturnar, hnúðkál og kartöflur og sneiðir niður í nokkuð álíka bita. Skerið einnig grænkálið niður.

 

Mér finnst að íslenskt perlubygg eigi að vera í íslenskri kjötsúpu. Mér finnst það vera mun rökréttara en að nota hrísgrjón.

 

 

Setjið tvær til þrjár handfyllir út í súpuna ásamt grænmetinu og sjóðið í um 25 mínútur þangað til að allt grænmetið er mjúkt í gegn. Saltið og piprið.

 

 

Slagorð Lea & Perrins - brings food alive - er ekki alvitlaust enda er þetta bara umami í flösku. Bætið nokkrum dropum saman við og smakkið til. 

 

 

Það sjá allir að þetta á eftir að verða gott!

 

 

Með matnum drukkum við þetta ljúfa vín - Poggio Teo Chianti Classico frá Valianó, sem er vínekra í miðju Toskana héraði. Ég hef nú gerst svo góður að hafa heimsótt þessa vínekru nú í vor og staðið á miðri ekrunni og notið þess að teyga vínið. Þetta vín er gert úr Sangiovese þrúgum.

 

Þetta er djúprúbinrautt í glasi, pakkað af ávexti á nefi, og þroskuðum ávexti á tungu. Mér fannst það passa ljómandi vel með nýju kjötsúpunni minni.

 

 

Nú er ekkert annað fyrir ykkur en að prófa. 

 

Bon appetit. 

 


Ljúffengt bleikju-tacos með mangó-chilisalsa, snöggpækluðum gulrótum og ferskum kóríander

$
0
0

Ég reyni að elda fisk tvisvar í viku - auðvitað ætti ég að gera það oftar - sérstaklega núna þegar við búum á Íslandi og aðgengi að spriklandi ferskum fiski er náttúrulega einstakt. Ég fer eiginlega alltaf til félaga minna í Fiskbúðinni á Sundlaugaveginum - ég hef vanið komur mínar þangað - og veit að hverju ég geng. Að þessu sinni fékk ég hjá þeim fjallableikju sem var alveg splunkuný.

 

Það er ekki oft sem ég fæ að nota kóríander í mat á mínu heimili. Það er vegna þess að eiginkona mín, Snædís, er með algera andúð á þessu ljúfmeti. Hún, líkt og 17% Vesturlandabúa, finnur sápubragð þegar hún smakkar á þessari jurt. Það hefur gert það að verkum að ég nota það afar sjaldan - nema þá þegar ég geri tacos og þá getur hver skammtað fyrir sig.

 

Ljúffengt bleikjutacos með mangó-chilisalsa, snöggpækluðum gulrótum og ferskum kóríander

 

Kryddið sem ég notaði á fiskinn er kryddblanda sem við erum að þróa saman, við Ólöf og Omry, hjá Krydd og Tehúsinu. Það er einkar ljúffengt á bragðið og ég hlakka til að kynna það nánar fyrir ykkur.

 

Fyrir fjóra

 

Hráefnalisti

 

800 g fjallableikja

2 msk hvítlauksolía

2-3 tsk kryddblanda að eigin vali

safi úr einni sítrónu

salt og pipar

 

1 mangó

1 rauður chili

1 rauðlaukur

2 tsk steinselja/mynta

2 msk jómfrúarolía

1 tsk rauðvínsedik

salt og pipar

 

2 gulrætur

2 msk rauðvínsedik

salt og pipar

 

Blandað grænmeti

handfylli kóríander

 

 

Penslið fjallableikjuna með hvítlauksolíu.

 

 

Dreifið svo kryddinu yfir og penslið flökin vandlega. Saltið og piprið.

 

 

Kreistið sítrónuna yfir bleikjuna.

 

 

Það er leikur einn að útbúa gulræturnar. Flysjið þær einfaldlega í skál og hellið edikinu yfir, saltið og piprið og látið liggja í 30 mínútur. 

 

 

Skerið mangóið í smá bita, ásamt rauðlauknum, chilipiparnum og blandið saman. Setjið næst olíuna,  edikið og kryddjurtirnar saman við. Saltið og piprið. Það er gott að láta salsað standa í þrjú korter til að allt bragðið nái að knúsast.

 

 

 

Steikið bleikjuna í olíu/smjöri þangað til að hún er steikt í gegn.

 

 

 

Með matnum nutum við þessa ljúffenga hvítvíns, Masi Masianco. Ég varð enn hrifnari að Masi vínunum eftir að við heimsóttum Valpolicella í maí - og Masi fyrirtækið. Við fengum að kynnast eigendum fyrirtækisins og það var einstaklega verðlaunandi að kynnast vínunum með þeim sem framleiða vínið. Þetta vín er blanda úr Pinot Grigio og Verduzzo þrúgunum - það er fallega gult í glasi, hefur léttan sítrónukeim í bland við örlítið sætan ávöxt. Passar ljómandi vel með fiskrétt eins og þessum. 

 

 

Svo er bara að raða matnum upp - hita burrito-köku í ofni eða á pönnu, smá salsa, handfylli af blönduðu grænmeti, vænn biti af heitri og ilmandi góðri bleikju, nóg af mangó-chilisalsa, gulrætur og nóg af fersku kóríander. 

 

Verði ykkur að góðu! 

 

Tvenns konar lamb sousvide með mömmusveppasósu í dásamlegu Kjósinni

$
0
0

 

Eftir langa, en góða, vinnuviku á stofunni minni drifum við okkur í sveitina. Foreldrar mínir, Lilja og Ingvar, eiga dásamlegt athvarf upp við Meðalfellsvatn í Kjós. Þau leyfa okkur gjarnan að koma í heimsókn - og það er alltaf dásamlegt að lúra í kotinu. Veðurblíðan þetta haust hefur líka verið með eindæmum - þetta langa og litskrúðuga haust - dásamlegt logn - brakandi ferskt loft. Í morgun vöknuðum við kvak svana á vatninu - og kindurnar höfðu fundið sér leið inn í garðinn okkar og tuggðu gras af áfergju. Hvað er yndislegra en að vakna, lifa og sofna í svona paradís? 

 

Vinir mínir hjá SS voru að merkja forkryddað lambakjöt hjá sér að óhætt væri að elda það með sous vide aðferð. Ég bauðst til að prófa. Flestir sem lesa bloggið mitt vita að ég hef verið að prófa mig áfram með þessa aðferð síðastliðin fimm til sex ár. Í bókinni minni, Veislunni Endalausu, sem kom út árið 2014 fannst mörgum lesendum heldur framandi að sjá þar nokkrar uppskriftir með þessari aðferð - nú held ég að langflestir matgæðingar kannist vel við þessa aðferð - og séu jafnvel farnir að beita henni sjálfir. 

 

Um miðjan næsta mánuð kemur einnig á markaðinn sous vide tæki, Vuoto - sem ég mæli eindregið með - í kassanum fylgir sous vide matreiðslubók eftir undirritaðan. Þetta er hugsað einna helst á fyrirtækjamarkað en einstaklingar geta nálgast tækið hjá Margt Smátt og í Kjötkompaníinu í Hafnarfirði. Ég er búinn að vera að prófa tækið síðan snemma í vor og það skilar sínu - kröftug og stöðug græja. 

 

Fyrir þá sem eru ennþá að stíga sín fyrstu skref í sous vide eldamennsku eða vilja kynnast henni nánar þá er kynning hér. 

 

Tvenns konar lamb sousvide með mömmusveppasósu í Kjósinni dásamlegu 

 

Það er nú ekki mikil eldamennska í þessari færslu ef frá er talin sósan sem mamma sauð upp. Við mamma beitum svipaðri aðferð við sósuna, en hennar verður alltaf aðeins betri en mín. Hún beitir einhverjum brögðum sem ég bý ekki yfir. 

 

Fyrir átta

 

1 kg lambasirloin, forkryddað

1 kg lambasirloin, "Bragð frá Ítalíu" 

 

Meðlæti

 

1 kg kartöflur

2 sætar kartöflur

1 heill hvítlaukur

4 msk jómfrúarolía

salt og pipar

 

Salat

 

blandað grænt salat

tómatar

sugarsnap baunir

sætar rauðar papríkur

fetaostur

salatsósa að eigin vali (heimagerð að sjálfsögðu) 

 

Fyrir sósuna

 

250 gr sveppir

1 laukur

3 hvítlauksrif

70 gr smjör

150 ml rjómi

200 ml vatn

1 lambateningur

vökvi af kjötinu

salt og pipar eftir smekk

 

 

Það var nú engin vinna fólgin í því að undirbúa kjötið. Lét það ná herbergishita áður en ég setti það í vatnsbaðið.

 

 

Lét vatnsbaðið vera í 56 gráðum. Setti plastfilmu yfir bara til að halda varmanum betur. 

 

 

Svo var bara að láta kjötið eldast í tvær klukkustundir. Þá er það fullkomlega eldað í gegn. 

 

 

Á meðan gerði mamma sósuna - ég gerði lítið annað en að smakka til og njóta!

 

Sósan er gerð nokkurn veginn svona;

 

Byrjið á að skera laukinn og hvítlaukinn smátt, sveppina gróft. Bræðið smjörið í pottinum og steikið sveppina, laukinn og hvítlaukinn við lágan hita. Ekkert á að brenna, bara hægt og bítandi að brúnast. Þegar eldhúsið er orðið fullt af dásamlegum sveppailm og hnetukeim, er rjómanum, vatninu og teningum hellt saman við og soðið upp, sjóðið síðan niður þangað til að sósan er af þeirri þykkt sem þið óskið.

 

Þegar lambið er tilbúið er öllu soði af því hellt saman við sósuna - við notuðum bara vökvann af forkryddaða lambinu. Hrærið vel saman við og smakkið til með salti og pipar. Sætið með sultu ef sá gállinn er á ykkur.

 

Kartöflurnar voru skornar niður, velt upp úr olíu og smátt skornum hvítlauk og bakaðar í ofni í tæplega klukkustund. Auðvelt!

 

 

Kjötið lítur svona út þegar það er fulleldað - nú er bara eftir að brúna það að utan. Það má að sjálfsögðu gera á pönnu, en í sveitinni grillum við alltaf.

 

 

Gætið þess að kveikja ekki í lambinu. 

 

 

Bara í stutta stund - hugmyndin er bara að fá smá rendur á kjötið - við erum að sækjast eftir Maillard efnahvarfinu - þar sem amínósýrurnar og sykrurnar á yfirborði kjötsins brúnast saman og mynda ný bragðrík efnasambönd. 

 

 

Ég veit ekki um ykkur - en þetta er fullkomlega eldað. Þetta er lambasirloin með kryddjurtum.

 

 

Og þetta er lambaribeye með ítölskum bragðkeim.

 

 

Með matnum nutum við þessa víns sem hefur verið í sérstöku uppáhaldi hjá mér, sér í lagi síðan í vor þegar ég fékk að heimsækja framleiðandann Masi, sem er í Valpollicella, sem eru svæði í grennd við Verónaborg. Þetta er vín sem ég hef drukkið oft áður - í þetta sinn vorum við með afmælisárganginn 2014 - en það hefur verið framleitt í 50 ár. Vínið er gert úr blöndu af þrúgum, mest Corvina, Rondinella og Molinara. Afmælisvínið er frábrugðið fyrri árgöngum að því leyti að öll uppskeran fór í framleiðsluna - Masi framleiðir einnig Amarone vín - en í ár var allt púðrið sett í Campofiorin. Og það finnst á bragðinu - það er kraftmikið, ávaxtaríkt, djúpt og með löngu eftirbragði. Það þolir án efa talsverða geymslu og jafnvel á það eftir að dafna með árunum. 

 

 

Báðir bitar voru lungamjúkir - og þó að lambaribeyið hafi verið gott þá var ég talsvert hrifnari af lambasirloin með kryddjurtum. Það var sérstaklega ljúffengt og kryddblandan hentar ákaflega vel fyrir sous vide eldamennsku. 

 

Eina sem hefði gert lambið betra - væri ef ég hefði kryddað það sjálfur, kannski væri það frábær hugmynd?

 

En gott var það! 

 

Verði ykkur að góðu! 

 

Lambakjötbollur "stroganoff" með tagliatelle og ristuðum valhnetum

$
0
0

 

Við höfum dvalið í New York nú um helgina. Við fengum ráðleggingar hjá vinum okkar, Tómasi og Önnu Margréti, sem dvöldu hérna í sumar ásamt yndislegu drengjunum þeirra - tvíburunum, Marínó og Sólvin. Þau voru í íbúðaskiptum og dvöldu í á aðra viku í Brooklyn, hverfi sem hefur tekið miklum breytingum síðastliðinn áratug eða svo. Við fundum ágætis hótel skammt frá Brooklyn brúnni - Aloft hótelið á Duffield götu. Þaðan höfum við kannað svæðið ýmist á fótgangandi eða hjólandi. 

 

Við fórum í afar skemmtilega hjólaferð um Brooklyn með Tony sem starfar hjá Brooklyn Bicycle Tours. Við fórum í ljómandi skemmtilega ferð með honum - The Brooklyn Pizza Sunset Tour þar sem við hjóluðum um allt hverfið - frá Williamsburg þvert og endilangt og svo suður til Brooklyn Heights. Við fengum að smakka flatbökur frá þremur stöðum - allt frábærar bökur. Mér fannst sú síðasta best - en hún var fyrst steikt og svo eldbökuð - pizza fritta.

 

Svo höfum við gengið borgina þvera og endilanga - í dag fengum við svo bókstaflega veður af veðrinu á Íslandi.

 

Flugið okkar til Íslands var afbókað og nær ómögulegt að fá upplýsingar um hvernig heim átti að komast. Eftir um tuttugu símtöl til Icelandair - og tveggja klukkustunda bið bauðst okkur að komast til Íslands með því að fara í gegnum Minneapolis - sem þýðir ferðalag upp á fimmtán klukkustundir. Ég náði að skipta vakt en konan mín missir af tækifæri til að halda fyrirlestur sem skipulagður var við heimkomu. Þó að ég skilji vel að ófyrirsjáanlegar aðstæður sköpuðust með þessu óveðri þykir mér furðulegt að ekki megi setja farþega í betra sæti til að flýta fyrir heimkomu. Við þessar aðstæður segir maður bara að sem betur fer er samkeppni um flugfarþega á Íslandi.

 

Við náðum líka að redda pössun fyrir börnin okkar. Sem betur fer eigum við gott fólk á Íslandi, ömmu Lilju og afa Ingvar og svo bróður minn - sem sjá um grísina.

 

Við hlökkum til að komast heim! 

 

Lambakjötbollur stroganoff með tagliatelle og ristuðum valhnetum

 

Ég fékk hugmyndina að þessum rétti af myndbandi sem ég fann á netinu. Ég breytti uppskriftinni auðvitað aðeins til að laga hana að "séríslenskum aðstæðum"

 

Hráefnalisti

 

Fyrir fjóra til sex

 

500 g lambahakk

500 g nautahakk

2 skalottulaukar

100 g heimagerður raspur (ég átti brauð frá Brauð og Co - ekki leiðinlegt það)

2 egg

4 msk heimagerð hvítlauksolía

1 msk hökkuð steinselja

1 msk timjan 

salt og pipar

250 g sveppir

1 msk djion sinnep

2 msk smjör

1/2 hvítvínsglas

250 ml kjötsoð

ein dós af sýrðum rjóma

4 greinar af timjan

salt og pipar

handfylli valhnetur

 

100 g af tagliatelle á mann

 

 

 

Byrjið á að blanda kjötbollurnar - setjið allt hráefnið í skál; hakkið, eggin, raspinn, hvítlauksolíuna, fersku kryddjurtirnar, salt og pipar og hnoðið vandlega saman.

 

 

Klípið svo rúmlega matskeið af blöndunni og mótið í fallegar kjötbollur - að stærð við golfbolta.

 

 

Bræðið smjör á góðri pönnu.

 

 

Ég elska að nota járnpönnur við svona eldamennsku - eitthvað í mér segir mér að kjötið brúnist betur á svona pönnum en öðrum pönnum.

 

 

Þegar búið er að brúna bollurnar að utan setjið þið þær svo í eldfast mót og bakið í 180 gráðu heitum ofni í kortér.

 

 

Sneiðið sveppina í sneiðar. 

 

 

Bræðið meira smjör í pönnu og karmelliserið svo sveppina að utan þangað til að þeir eru fallega brúnir. Það er um að gera að fá börnin ykkar til að hjálpa til á þessu stigi málsins. 

 

Maturinn verður bara betri þegar svona krútt hjálpa til við matargerðina. 

 

Þið getið dáðst að þeim - og notið rauðvínsdreitils á meðan. Ekki gleyma því að salta og pipra. 

 

 

Þegar sveppirnir eru brúnaðir - setjið þið sinnepið saman við og blandið vandlega saman. Ilmurinn í eldhúsinu mun verða dásamlegur.

 

 

Bætið svo hálfu hvítvínsglasi á pönnuna og sjóðið áfengið vel niður. Bætið næst við kjötsoði og sjóðið niður um helming.

 

 

Snarið svo einni dós af sýrðum rjóma á pönnuna og blandið vel saman.

 

 

Næst ferskt timjan - það má auðvitað setja það fyrr á pönnuna.

 

 

Bætið svo kjötbollunum saman við sósuna. 

 

 

Sjóðið tagliatelle í söltu vatni þangað til að það er "al dente" - sem þýðir að það er aðeins undir tönn þegar bitið er í það. 

 

 

Ristið handfylli af valhnetum í þurri pönnu.

 

 

 

Með matnum nutum við þessa rauðvíns; Marques de Casa Concha Cabernet Sauvignion frá því 2015. Þetta er vín  frá Chile sem ég hef drukkið nokkrum sinnum áður - og er gjarn á að taka með mér þegar ég fer í gegnum tollinn á Keflavíkurflugvelli.  Þessi sopi er munnfyllur - fallega dumbrautt í glasi - með þéttu ávaxtabragði - sólber og kirsuber, kryddað og jarðkennt með ljúfu eftirbragði. 

 

 

Þetta var einstaklega velheppnaður réttur. Lambahakk er ótrúlega ljúffengt!

 

Verði ykkur að góðu!

Lamba-chili con carne með sýrðum rjóma, nachos og avocadó á köldu haustkvöldi

$
0
0

 

 

Sumir pottréttir eru einfaldlega betri en aðrar - og chili con carne trónir þarna á toppnum með mörgum góðum uppskriftum eins og t.d. Bolognese. Og alveg eins og bolognese þá finnst mér Chili con carne vera uppskrift sem passar einstaklega vel þegar kólna fer í veðri og helst að það sé komin snjóhula yfir jörðina.

 

Ég hef margoft eldað chili con carne áður - meira að segna grænmetisútgáfu sem var déskoti ljúffeng - hægt er að lesa um hana hérna. En af einhverri ástæðu hef ég látið það vera að setja mína útgáfu af þessum rétt á netið - en bæti úr því núna.

 

Mér finnst gott að gera stóra uppskrift í senn. Þá veit ég að það verður til afgangur, sem hægt er að frysta og þannig á maður til veislumáltíð í vændum þó að tíminn sé knappur - eins og það oft vill verða í aðdragandi hátíðanna sem framundan eru.

 

Lamba-chili con carne með sýrðum rjóma, nachos og avocadó á köldu haustkvöldi

 

Mér finnst gott að gera þennan rétt talsvert heitan - hann verður betri fyrir vikið og stendur þannig betur undir nafni - en þar gengir sýrði rjóminn hvað stærstu hlutverki, ekki bara sem bragðbætandi efni heldur hefur hann líka kælandi áhrif þannig að maka manns og börn svíða síður undir chilipiparnum.

 

Fyrir 4-6 (þrisvar sinnum)

 

2 laukar

4 hvítlauksrif

5 cm engifer

3 rauður chilipipar

jómfrúarolía

4 tsk chiliduft

2 tsk broddkúmen

2 tsk kóríander

2 kanelstöng

3 lárviðarlauf

1 kg lambahakk

500 g nautahakk

1 dós chipotle salsa (hefði notað chipotlemauk en fann það ekki í búðinni)

4 dósir niðursoðnir tómatar

3 dósir blandaðar baunir í dós (t.d. nýrnabaunir, svartar baunir og brúnar baunir)

1,5 l kjúklingasoð

2 msk kakóduft

salt og pipar

 

Sýrður rjómi

Nachosflögur (eða tortilla)

rifinn ostur

ferskur kóríander

 

 

Sneiðið laukinn, hvítlaukinn, engiferin og chilipiparinn.

 

 

Steikið í heitri olíu í stórum potti - núna verður tekið til hendinni. 

 

 

Merjið kóríanderfræ og broddkúmen í mortéli og bætið útí pottinn ásamt chiliduftinu. 

 

 

Næst lárviðarlauf og svo heill kanil.

 

 

Svo er að setja kjötið - og brúna það vandlega. Ekki gleyma að salta og pipra.

 

 

Ég rótaði í búrinu hjá mér og fann nokkrar tegundir af tómötum, bæði heila og maukaða. Kann þó alltaf betur við heila - finnst þeir yfirleitt gefa manni betra bragð. 

 

Setti svo 1,5 L af kjúklingasoði. 

 

 

Ég ætlaði að nota bara chipotle mauk - en það var ekki til í búðinni þannig að ég keypti þetta í staðinn - og ekkert að því - þetta var líka ljúffengt. 

 

 

Fullt af tabaskó!

 

 

Kakóið er eiginlega leynigesturinn í þessa kássu og gefur henni ljúffenga breidd.

 

Það þarf að svo að sjóða kássuna niður í um sex kortér þannig að hún er orðin þykk og girnileg.

 

 

Skolið baunirnar og bætið þeim svo út í kássuna. Það þarf ekki nema 20 mínútur til að hita þær í geng.

 

 

Alveg að koma.

 

 

Ég nota alltaf 18% rjóma - mér finnst hann langbestur - auk þess að bæta matargerðina þá hefur hún líka kælandi áhrif eins og ég nefndi áðan. 

 

 

Mér finnst ágætt að fá mér smá rauðvínstár með mat eins og þessum, og þá finnst mér gott að eiga eina búkollu inn í búri sem hægt er að laumast í þegar maður týmir ekki að opna flösku. Og þetta er alveg ljómandi góður sopi til að hafa með Chili con carne. Lindemans er auðvitað vín sem annar hver Íslendingur hefur einhvern tíma bragðað. Ágætis ávaxtabragð, fínn fylling og gott jafnvægi í eftirbragðinu. 

 

 

Svo er bara að raða þessu saman á disk. 

 

Ég hafði avókadóið með - sem er auðvitað ljúffengt - en aðallega vegna þess hvað ég var undrandi yfir því að fá svona fallegt avókadó - þau virðast ekki vaxa á trjánum hérna á Fróni! 

 

Þetta var dásamlega ljúffengt og saðsamt. 

 

Verði ykkur að góðu! 

Eldsnöggur lax frá fjarlægum löndum með mynturaitu í salatvefju

$
0
0

 

 

Eins og kannski margir hafa tekið eftir á blogginu mínu þá hef ég verið að vinna með Ólöfu og Omry, eigendum Krydd og Tehússins, á síðustu misserum. Það hefur verið ánægjulegt að kynnast þessu ljúfa fólki og kynnast þeirri ástríðu sem liggur að baki vinnu þeirra. Þau hafa í tvö ár rekið Kryddbúðina sína í Þverholti. Hún er krúttlegri en hægt er að setja í orð - það verður eiginlega bara að kíkja við.

 

Við höfum þróað saman nokkrar kryddblöndur sem virðast leggjast vel í landsmenn en þau hafa selst upp nokkrum sinnum á síðustu mánuðum. Kryddblöndurnar hafa verið teknar í sölu í Fjarðarkaupum, Melabúðinni og Hagkaup auk þess að fást á netinu. Við bindum auðvitað vonir við að þær muni sjást á hillum fleiri verslana eins og Krónunni og Nettó.

 

Við byrjuðum á því að setja fimm blöndur á markaðinn fyrir sumarið en erum nú að bæta í safnið; bráðum verður Villt og ótamið - villibráðarblanda aðgengileg, Þakkargjörð og meira - kalkúnakryddblanda, Jólin, jólin allstaðar - jólaglöggsblanda, Grafin en ekki gleymur - graflaxblanda og svo þessi blanda sem er hugsuð á spriklandi ferskan fisk - Frá fjarlægum höfum - kryddblanda á fisk.

 

Eldsnöggur lax frá fjarlægum löndum með mynturaitu í salatvefju

 

Og þetta er eins auðveldur réttur og hugsast getur - og fljótlegur.

 

Fyrir fjóra til sex

 

1 laxaflak (sirka 1,2 kg)

2-3 msk jómfrúarolía

1-2 msk Frá fjarlægum höfum - kryddblanda á fisk

salt og pipar

 

200 ml grísk jógúrt

1/2 kjarnhreinsuð agúrka

handfylli mynta

1 msk hunang

1 msk hvítlauksolía

salt og pipar

 

icebergsalat

 

 

Það ina sem þarf að gera við laxinn er að skola hann og þerra. Leggja hann svo á eldfast mót (ég lagði hann á álpappír til að minnka uppþvottinn á eftir). 

 

Næsta skref er að leysa kryddið upp í jómfrúarolíunni, smakka til með salti og pipar og pensla svo laxinn vandlega með blöndunni.

 

Hitið ofninn í um 225 gráður og bakið laxinn í um 20 mínútur - þangað til að hann er eldaður í gegn. Ef flakið er þunnt þá mun það auðvitað taka styttri tíma.

 

 

Raita er köld sósa sem er notuð til að kæla niður bragðmikinn eða bragðsterkan mat. Í hana má auðvitað setja hvaða grænmeti eða ávexti sem er. Ég ákvað að fara hefðbundna leið þar sem ég vildi leyfa kryddblöndunni minni að njóta sín.

 

Ég skrapa alltaf kjarnan úr gúrkunni - hann er vatnsmestur og bragðminnstur. Restina saxa ég niður og blanda við grísku jógúrtina.

 

 

Svo er að skera gróflega (eða bara rífa niður) ferska myntu. Svo er sósan bragðbætt með heimagerðri hvítlauksolíu, hunangi, salti og pipar.

 

 

Ilmurinn í eldhúsinu varð hreinlega kyngimagnaður þegar laxinn var tekinn út úr ofninum.

 

 

Það er aldrei leiðinlegt að smakka á góðu léttvíni með góðum mat. Bonterra er bandarískt Sauvignion Blanc sem er ljómandi hvítvínssopi. Fullt af sítrus í nefi og svo ljúft ávaxtabragð á tungu með eftirbragði í góðu jafnvægi.

 

 

 

Svo var laxinum komið fyrir í salatblaði, með fullt af raitu og svo bitið í - og notið! 

 

Viewing all 358 articles
Browse latest View live